1. Nýir bílar
  2. LM World Premiere
Lexus á Íslandi
MUNAÐUR Á PERSÓNULEGUM NÓTUM

NÝR LEXUS LM

Þessi „lúxusfjölnotabíll“ er fjórða gerðin í framtíðarstefnunni í hönnun Lexus og kemur í kjölfar góðs árangurs nýju NX- og RX-bílanna og RZ-rafbílanna. Hér er komið að nýjasta áfanganum í heildarendurnýjun vörulínunnar sem felur í sér nýtt byggingarlag, nýjar aflrásir og framsækna tækni.

NÝR LEXUS LM

MUNAÐUR Á PERSÓNULEGUM NÓTUM

Markmið Lexus var að skapa fyrsta flokks innanrými sem væri jafnþægilegt og stofan heima hjá þér, með öllum þægindum sem þarf fyrir vinnustað á hjólum, og gæðum sem standast öllum öðrum bílum á markaðnum snúning. Hér geta farþegarnir notið fullkominnar slökunar og verið þeir sjálfir.

SKER SIG ÚR

EINSTÖK NÆRVERA Á ÖLLUM SVIÐUM

Við þróun LM-hugmyndabílsins lagðist Lexus í rannsóknir meðal framleiðenda einkaflugvéla og hjá sterkefnuðum viðskiptavinum. Niðurstöðurnar staðfestu að viðskiptavinir líta á það sem hæsta stig lúxuss þegar umhverfið veitir þeim fullkomna hvíld, bæði líkamlega og andlega. Þessi eiginleiki fær jafnvel enn meira vægi en að hafa aðgang að framúrskarandi tækni og virkni.

Lexus hefur nýtt sér þessa þekkingu til að hanna bíl þar sem farþegar geta slakað fullkomlega á í sérsniðnum þægindum þar sem allt er auðvelt. Hér er á ferðinni Omotenashi-gestrisni Lexus þar sem fólk upplifir sömu umhyggju og gestir á heimili þínu.

AUÐSÝND GESTRISNI

HVERT EINASTA SMÁATRIÐI TEKIÐ TIL ATHUGUNAR

Þróun LM, rétt eins og allra nýrra Lexus-gerða, hefur að öllu leyti verið með mannfólk í forgrunni.

Megináhersla hefur verið lögð á þægindi og vellíðan farþega með farþegarými þar sem finna má einstaka Omotenashi-gestrisni Lexus. Hvert smáatriði er hannað til að láta farþegum líða eins og heima hjá sér með fullkominni umhyggju, hvort sem þeir vilja slappa af eða vinna. Sætin eru hönnuð með fullkomnum stuðningi og þægindum; umhverfi farþegarýmisins er stýrt nákvæmlega með tilliti til hitastigs, loftgæða og lýsingar; og boðið er upp á þægilegan aðgang að tengimöguleikum og afþreyingu, þar á meðal 48 tommu HD-breiðskjá og sérhönnuðu Mark Levinson 3D Surround Reference-hljóðkerfi.

HÖFÐAR TIL ALLRA SKILNINGARVITA

ÞÆGILEGUR OG HLJÓÐLÁTUR AKSTUR SEM EINKENNIR LEXUS

Lexus leitaðist við að samræma akstursánægju og þægindi í akstri í LM, en erfitt getur reynst að halda jafnvægi á milli þessara eiginleika. Til að tryggja réttu Lexus-upplifunina við akstur kom sér vel að nýta kosti GA-K byggingarlagsins, þar á meðal gæði, mikinn stöðugleika undirvagns og aksturseiginleika, hemlun og fjöðrunartækni sem skila góðum eiginleikum við akstur en tryggja um leið þægindi í akstri.
NÝR LM

7 SÆTA

Í sjö sæta gerðinni er miðröðin með VIP-sætum í forgangi hvað pláss og aðgengi að búnaði varðar auk þess sem boðið er upp á þriðju sætaröðina með sætum sem hægt er að lyfta upp og leggja saman þegar þörf er á viðbótarplássi.
NÝR LM

4 SÆTA

Fjögurra sæta gerðin er birtingarmynd alvöru munaðar, með aðeins tvö fjölnota aftursæti og úrval búnaðar til að gera sérhverja ferð einstaklega þægilega og ánægjulega. Þar á meðal er skilrúm á milli fram- og afturhluta farþegarýmisins og 48 tommu breiðskjár í afturhluta farþegarýmisins ásamt glerþili sem hægt er að dekkja til að fá aukið næði. Sérhannað Mark Levinson 3D Surround-hljóðkerfið er með 23 hátölurum, og hugað er að þægindum í farþegarými með fágaðri Lexus-loftstýringu þar sem hitaskynjarar eru notaðir til að stýra hita og loftræstingu með mikilli nákvæmni.
INNANRÝMI

STJÓRNBORÐ Í SNJALLSÍMASTÍL

Hraðvirk og einföld stilling ýmissa eiginleika og búnaðar í farþegarýminu með stjórnborði sem er hannað eins og snjallsími. Þetta má nota til að stjórna hljómtækjunum, stillingum hita- og loftstýringar, virkni í sætum, lýsingu í innanrými og gluggatjöldum.

Nýi LM-bíllinn er einnig sá allra fyrsti í heimi sem býður upp á raddstýringu sem svarar skipunum frá farþegum í aftursæti sérstaklega.

INNANRÝMI

MARK LEVINSON® 3D SURROUND SOUND REFERENCE-HLJÓMTÆKI

Mark Levinson 3D Surround Sound Reference-hljómtæki eru sérhönnuð fyrir báðar útgáfur LM. 23 hátalarar í fjögurra sæta gerðinni og 21 hátalari í sjö sæta gerðinni skila hljómgæðum í hæsta gæðaflokki og gefa heimabíókerfi ekkert eftir.
INNANRÝMI

48 TOMMU BREIÐSKJÁR

Í fjögurra sæta LM-gerðinni er 48 tommu HD-breiðskjár í neðri hluta skilrúmsins í fullkomnum halla til að horfa á. Skoðunarstillingarnar eru þrjár: allur skjárinn, bíómynd og aðskildir vinstri og hægri skjáir með sitthvoru efninu (með sérstökum heyrnartólum fyrir vinstri og hægri skjá).

Notendur geta varpað efni beint úr síma eða spjaldtölvu, eða tengst skjánum um tvö HDMI-tengi. Hægt er að nota kerfið til afþreyingar eða fyrir viðskiptafundi á netinu.

Í sjö sæta gerðinni er 14 tommu margmiðlunarskjár við aftursæti sem hægt er að stjórna óháð skjánum í miðstokknum að framan.

INNANRÝMI

LEXUS-LOFTSTÝRING MEÐ AUKNUM EIGINLEIKUM

Lexus hefur þróað loftstýringarkerfið sitt fyrir nýja LM-bílinn og aukið við búnað og eiginleika þannig að nú sinnir það fleiri þáttum í umhverfi farþegarýmisins en loftkælingu. Hægt er að líkja þjónustunni sem það veitir við persónulegan „einkaþjón“ sem sér til þess að allt sé í samræmi við þarfir notandans.

Hægt er að sérstilla loftkælinguna, lýsingu í afturhluta farþegarýmisins, gluggatjöldin og sætishallann með einni snertingu og hver og einn farþegi getur valið sínar eigin stillingar.

INNANRÝMI

OMOTENASHI Í HÁMARKI

Með nýja LM-bílnum býður Lexus upp á Omotenashi í hámarki, með sérsniðnum lúxus, þægindum og vellíðan í hverju smáatriði.

Í skilrúminu í miðju fjögurra sæta gerðarinnar er efri hlutinn úr glæru gleri til að farþegar í aftursætum sjái beint út á veginn fram undan. Hægt er að opna hann eða loka, og þegar frekara næðis er óskað er hægt að dekkja glerið með því að ýta á hnapp.

Farþegarýmið er lýst með óbeinni lýsingu í lofti og hliðum og ljóskösturum í loftinu og í fjögurra sæta gerðinni er einnig skuggalýsing við gólfhæð. Hægt er að breyta innanrýminu með fjölbreyttu úrvali litastillinga fyrir stemningslýsingu, þar á meðal 14 litbrigðum í fimm mismunandi þemum: kyrrð, slökun, örvun, athygli og spennu.

INNANRÝMI

ÚTSÝNIÐ LYKILLINN AÐ VELLÍÐAN

Innilokunarkennd getur valdið bílveiki, sér í lagi þegar horft er á skjá eða lesið. Því hefur Lexus gert gluggana í LM eins stóra og mögulegt er svo farþegar hafi alltaf tilfinningu fyrir því hvernig og hvert bíllinn hreyfist. Til viðbótar við stóra hliðargluggana eru fastir gluggar í þakinu og gott útsýni fram á við út um framrúðuna.
INNANRÝMI

TAZUNA-ÖKUMANNSRÝMI

Í samræmi við meginlögmál Omotenashi er ökumannsrýmið hannað með sömu áherslu á smáatriðin og aðrar nýjar Lexus-gerðir. Því er öllum helstu stjórnhnöppum, mælum og upplýsingum komið fyrir í samræmi við Tazuna-hugmyndafræðina, til að ökumaðurinn þurfi ekki annað en að hreyfa hendur eða augu lítillega og geti haldið athyglinni óskiptri á veginum fram undan. „Tazuna“ er japanskt orð sem lýsir þeirri stjórn sem knapi hefur á reiðskjóta sínum með lítillegum hreyfingum aktygjanna.

Skipulag ökumannsrýmisins stuðlar að einstökum Lexus-akstri sem hjálpar ökumanni að hafa öllum stundum tilfinningu fyrir stjórn og tengslum við bílinn og tryggir þægindi á hvaða ferðalagi sem er. Til að ökumaðurinn upplifi meiri nánd við bílinn hefur stýrið verið fært nær honum og í uppréttari stöðu, auk þess sem staðsetning fótstiganna og fótskemilsins hefur verið reiknuð nákvæmlega út.
YTRA BYRÐI

ÞOKKAFULLUR OG VANDAÐUR

Nýi LM-bíllinn er hannaður í samræmi við „næsta kafla“ Lexus, undir þemanu „þokkafullur og vandaður“. Þetta stuðlar að einstakri og sjálfsöruggri fágun á vegum úti í hlutföllum sem gera bílinn auðveldan í notkun og stýringu. Heildarlengd er 5.130 mm, breidd 1.890 mm og hæð 1.945 mm. Góð breidd, hæð og 3000 mm hjólhaf gegna lykilhlutverki í að hámarka plássið fyrir aftursætisfarþega.

Djörf hönnun framhlutans kynnir til sögunnar nýtt útlit Lexus með uppbroti á hinu kunnuglega snældulaga grilli. Snældulöguninni hefur verið breytt til að skapa stærra neðra grill undir nettu opi fyrir neðan brún vélarhlífarinnar sem tengir saman aðalljósin. Flæðandi línur LM eru undirstrikaðar með svörtum stoðum að framan og aftan á meðan stórt glersvæði allt í kring skapar opna tilfinningu. Stórar hliðarrennihurðir tryggja auðvelt aðgengi.

Valkostir fyrir felgur eru 17 tommu steyptar eða 19 tommu þrykktar álfelgur og litaval er í samræmi við glæsileika LM, þar á meðal þrenns konar „sonic“-áferðir með djúpum gljáa.
ÖRYGGI

ÖRYGGI ÖKUMANNA

Nýjustu eiginleikarnir fela meðal annars í sér aukna virkni fyrir árekstrarviðvörunarkerfið, þar á meðal neyðarstýrisaðstoð, og sjálfvirkan hraðastilli ásamt fyrirbyggjandi akstursaðstoð fyrir öruggari akstur í hægari borgarumferð. Ökumannsskynjari fylgist vel með árvekni ökumannsins og hægir rólega á bílnum þar til hann stöðvast og virkjar eCall-kerfið til að kalla á hjálp ef ekki er brugðist við viðvörunum. Hurðirnar – þar á meðal aftari rennihurðirnar – eru búnar hurðakerfi með rafrænum lás frá Lexus, með aðstoðarkerfi fyrir örugga útgöngu til að vara við umferð sem kemur aftan frá og koma í veg fyrir að dyrnar séu óvart opnaðar, sem gæti valdið slysi.

Þráðlaus tæknibúnaður býður upp á hnökralausar hugbúnaðaruppfærslur til að tryggja að eigendur njóti ávinningsins af nýjustu þróun án þess að þurfa að fara með bílinn á þjónustumiðstöð.