concept cars

HUGMYNDABÍLAR


Hugmyndabílar Lexus veita forvitnilega nasasjón af hönnunarstefnu okkar í framtíðinni.

main menu lexus brand

NÝSKÖPUN Í
HÖNNUN

Þessi hluti birtir nokkrar af eftirtektarverðustu hönnunarhugmyndum okkar og sýningum.

hybrid cars

HYBRID
BÍLAR

Lexus er einn helsti framleiðandi lúxus hybrid bíla í heiminum í dag.

lexus service

ÞJÓNUSTA LEXUS


Það er lúxus að eiga Lexus.

Used car hero

NOTAÐIR
LEXUSBÍLAR

Skoðaðu notaða lúxus bíla frá Lexus

AFTUR Í GREINAR

VIÐTAL VIÐ
HÖNNUÐINN NERI OXMAN

FEBRÚAR 2017, Á MIT MEDIA LAB

1. Hvernig tilfinning var að vera boðið að vinna að þessu verkefni fyrir Lexus International?

Þegar Lexus leitaði til okkar hjá The Mediated Matter Group vorum við að vinna að langtímaverkefni sem teymið okkar hannaði í tengslum við þrívíddarprentun úr gagnsæju gleri. Við kynntum þessa tækni til sögunnar árið 2015 og höfum síðan unnið að endurhönnun hennar frá grunni, í því skyni að geta nýtt hana við hönnun stærri verka úr gleri. Þetta var eiginlega tæknilausn sem var að leita að verkefni, fremur en öfugt – að verkefnið vantaði tæknilausn – og þá birtist Lexus!

2. Hvaða skilning leggur þú í þemað „YET“?

„YET“ er áhugavert orð. Það getur þýtt „en“, „enn“ og „þó“, svo eitthvað sé nefnt, og merking þess er alfarið háð samhenginu: ævafornt, en þó nútímalegt. Af þessum sökum vísar orðið til heildar (merkingar) sem er stærri í sjálfri sér en samanlögð merking hluta hennar (röð orða). Þetta er sérkennilegt orð – orð, en samt fremur orðalag – orð sem er notað til að setja fram tengingar milli annarra orða, gjarnan andheita: hratt en þó hægt, hart en þó mjúkt, dimmt en þó bjart, framsækið en þó hefðbundið, tímalaust en þó nýtt. Þetta hugtak má því líta á sem málfræðilegt verkfæri sem skapar samvirkni milli tveggja lýsandi orða sem myndu annars ekki geta átt samleið eða skapa tvíræðni: gömul saga, en þó á einhvern hátt svo ný. Orðið „YET“ táknar því fyrir okkur heildina sem er stærri en samtala hluta hennar, heild sem getur innihaldið eitthvað sem við fyrstu sýn kynni að virðast þversögn eða ósamræmanlegar andstæður. Það sameinar hlutina, fremur en að skilja þá í sundur.

3. Með hvaða hætti tengir þú þemað „YET“ við°innsetninguna ykkar?

Okkur í The Mediated Matter Group þótti þemað „YET“ mjög spennandi og frjótt, því það felur í sér ferðalag þar sem við hefjum okkur upp yfir „veröld stakra hluta“ og förum inn í „veröld heildar“.

Það er til dæmis hægt að nálgast hönnun og smíði byggingar, flíkur, flugvélar eða ökutækis með tvenns konar hugarfari. Það fyrsta sem þarf að hafa í huga við hönnun hvers þessara hluta fyrir sig er að nálgast hlutinn sem vél: verkfæri – samsett úr hlutum – sem notar vélrænt afl og þar sem hver gegnir tilteknu hlutverki. Þegar hlutarnir eru settir saman gera þeir okkur kleift að framkvæma sértækar aðgerðir, svo sem að fljúga (flugvél) eða aka (bíll), eða eitthvað óhlutbundnara, eins og, ja, að eiga heimili (bygging). Því næst þarf að nálgast hlutinn sem lífræna heild eða „veru“ – heild sem er stærri en samtala hluta hennar, eitthvað sem vísar út fyrir gjörninginn að fljúga eða aka, vísar til upplifunarinnar af því að fljúga eða aka: auðþekkjanlegt hljóð í hurð sem er lokað, hindrunarlaus snúningur stýrisins, umfang útsýnisins, sálin í hljóðunum, hreyfieiginleikar og áferð vélbúnaðar, gleðin í gagnsæinu. Þegar allir þessir stöku hlutar koma saman verður til upplifun sem ekki er hægt að brjóta niður í stakar einingar. Og raunar hættir þessi upplifun að vera til um leið og hún er brotin niður með þeim hætti. Við teljum að þessi nálgun sé undirstaðan fyrir hugmyndafræði allra frábærra fyrirtækja sem láta sig hönnun einhverju varða.

Náttúran sjálf einkennist af samvirkni: Hún er í senn skilvirk og áhrifarík, hún býr yfir bæði notagildi og fegurð, hún er tímalaus og þó tímasett, hún er ævarandi en þó aðlögunarhæf, sjálfbær en þó háð vistfræðilegum aðstæðum, í jafnvægi en bregst þó við breytingum. Allt sköpunarverk náttúrunnar má skoða sem heildir sem eru stærri en samtala hluta þeirra.

Fyrir innsetninguna okkar vildum við skapa upplifun sem væri heildræn og óbundin af samsetningarreglum, bæði hvað varðar þá tækni sem var þróuð sérstaklega til að gera hana tæknilega mögulega og hvað varðar hönnunarlega heildarmynd. Og samvirknin á milli vélar og lífrænnar heildar, milli þess vélræna og þess lifandi, er það sem að lokum vísaði veginn og var helsti innblástur okkar.

4. Hvað er svona sérstakt við að nota þrívíddarprenttækni fyrir gler?

Í stuttu máli getum við prentað út optískar linsur í mikilli stærð.

Blástur, pressun og mótun og aðrar mótunaraðferðir fyrir gler hafa allar haft það að markmiði að auka gæði og notkunareiginleika glersins. En getan til að fínstilla ljósfræðilega og vélræna eiginleika glers í hárri rýmistengdri upplausn í framleiðsluskyni hefur að mestu verið markmið sem ekki var ljóst hvernig mætti ná.

Viðbótareiginleikar við framleiðslu á gleri gera okkur kleift að skapa hluti sem eru rúmfræðilega sérstillanlegir og er hægt að fínstilla ljósfræðilega í mikilli rýmistengdri upplausn í framleiðsluskyni. Við höfum líka áður gert tilraunir með litþéttni og -breytingar og höfum íhugað ýmsar leiðir við að láta litatónun hafa áhrif á umhverfisþætti, þá sérstaklega notkun sólargeislunar við orkunýtingu. Vegna þess að við getum hannað og prentað í þrívídd íhluti af breytilegri þykkt og með flókna eiginleika og útlit – sem er allt annað en við glerblástur, þar sem innra byrðið endurspeglar alltaf ytra útlit og form – getum við stýrt gegnfararhlutfalli sólargeislanna. Með öðrum orðum, ólíkt pressuðum eða blásnum glerhluta – sem getur ekki haft annað en slétt yfirborð á innra byrðinu – getur prenthlutur verið með flókna yfirborðseiginleika bæði að utan sem innan. Slíkir eiginleikar geta virkað eins og sjóngler eða linsa og myndað flókin brenniflatarmynstur.

Þessi færni gerir kleift að prenta út flóknar optískar linsur, leiðandi ljósfræðileg tæki sem geta safnað eða dreift ljósgeislum með því að nota ljósbrot. Verkið sem við erum að vinna núna jók skilning okkar á þeim hönnunarlegu takmörkunum sem prentarinn setur okkur, svo sem hornum og minnsta og stærsta beygjuradíus sem mótorknúni prentbúnaðurinn getur náð við prentun án þess að glata heilleika uppbyggingarinnar. Hópurinn er líka að vinna að því að öðlast betri skilning á vélrænum og ljósfræðilegum eiginleikum prenthlutanna.

The Mediated Matter Group – í samstarfi við Glass Lab hjá MIT, undir stjórn Peter Houk, og vélaverkfræðideild MIT – kynnti fyrsta glerprentarann til sögunnar árið 2015. Allar götur síðan höfum við unnið af kappi að næstu kynslóð prentarans. Annarrar kynslóðar þrívíði glerprentarinn okkar byggir á fyrri tilraunum The Mediated Matter Group á sviði viðbótareiginleika við framleiðslu á ljósfræðilega gagnsæjum byggingarhlutum og kynnir til sögunnar algera endurhönnun byggingarfræðilegrar stjórnunar og ferlastýringar, með hliðsjón af eiginleikum hráefnisins. Markmið okkar var að skapa mjög háþróað framleiðslutæki sem gæti búið til glerhluta með stillanlegum en um leið fyrirsjáanlegum vélfræðilegum og ljósfræðilegum eiginleikum. Þar sem hitastig við framleiðslu og seigjustig efnisins eru tiltölulega há krefst framleiðsluferlið mikillar þekkingar á varmafræðilegu atferli glers við þær aðstæður sem unnið er með það með búnaðinum. Þessi nýja framleiðsluaðferð felur í sér varmastýrikerfi sem er stafrænt og samþætt við allt glermótunarferlið, auk nýstárlegs fjögurra ása hreyfistýrikerfis, sem auðveldar flæðistýringu, eykur nákvæmni rýmisgreiningar og eykur framleiðsluhraðann, þar sem bráðið gler, allt að 30 kg, getur flætt samfellt um búnaðinn.

5. Hver er stærsta áskorunin í þessu verkefni?

Þetta verkefni er fullt af áskorunum. Tæknilega er þetta afar flókið, þar sem við erum – í fyrsta sinn – að framkvæma þrívíddarprentun á stórum hlutum úr optískt gagnsæju gleri. Það vandasamasta við að prenta glerhluti af þessari stærð, og raunar almennt, er að til að stilla vélræna ljósfræðieiginleika glers verður að nota, meðhöndla og geyma gler við mjög háan hita. Til að glerið verði nógu fljótandi svo hægt sé að soga það út um stút verður að halda því við hitastig sem er yfir 1000 °C. Til að ráða við þetta þarf prentarinn að vera búinn aðskildum hitahólfum fyrir hvert stig framleiðsluferlisins: Bráðnun, flæði, herðingu, o.s.frv.

Einn heitasti staður á Jörðinni – þar sem mælst hefur hiti allt að 57 gráður á Celsíus – er Dauðadalurinn í Kaliforníu. Ímyndaðu þér bara hvernig það er að prenta gler í um það bil 1000 gráðu hita á Celsíus! Og það gerum við með aðstoð einvalaliðs glersérfræðinga – sem sumir hafa starfað við glerblástur áratugum saman – með sérþjálfun í að meðhöndla efnið af tilhlýðilegri varkárni.

Til að smíða prentarann þurftum við að teikna og hanna verkfræðilega aðskilin hitahólf, sem og hugbúnaðar- og vélbúnaðaríhluti fyrir hvert stig framleiðsluferlisins – fyrir bráðnun glersins, fyrir flæði glersins og fyrir herðingu glersins. Hver þessara ferla þarf sitt sérhannaða hólf og hvert hólfanna er með tiltekið hitastigssvið. Þannig skilgreinir tæknilega áskorunin eðli verkefnisins, og um leið menningarlegt umhverfi þess: Hvernig hannar maður fullkominn arinn?

Fyrsta tæknilega áskorunin er að ná stjórn á hitanum, því næst er komið að því að stjórna ljósinu. Með aðstoð frábæru verkfræðinganna í teyminu okkar tókst okkur að þróa hreyfistýringarumhverfi – ásamt mjög háþróuðu notandaviðmóti – til að stýra virkum ljósgjafa innan hverrar súlu sem beint er gegnum prenthlutana úr gleri.

Þriðja áskorunin – og líklega sú stærsta – var ekki fyrst og fremst tæknilegs eðlis, heldur snerist um að skapa samfélag einstaklinga af gerólíkum sviðum – arkitekta, vöruhönnuða, vélaverkfræðinga, hugbúnaðarverkfræðinga, efnafræðinga, vísindamanna og svo framvegis. Fólkið í teyminu er úr margs konar atvinnugreinum og rannsóknarsviðum og teymið var kallað saman til að kynna nýja glerprentarann okkar og fyrsta stóra verkið sem við sköpuðum með honum.

6. Hvað vilt þú að gestirnir sem skoða innsetninguna ykkar í Mílanó sjái, skynji eða upplifi?

Ég vil að þeir upplifi sögnina (að fljúga, að aka o.s.frv.) án nafnorðsins (flugvél, bíll o.s.frv.)

Við vildum tjá upplifunina óháð nytjahlutnum sem gerir upplifunina mögulega – sýna ferðalagið án farartækisins. Við vildum sýna hvernig það væri að fljúga eða aka á stjörnubjartri nótt, án þess að vera bundin við vélina sem slíka. Fyrir sýninguna „LEXUS YET“ sáum við fyrir okkur endalausa röð spegilmynda hjólforma, gerða úr ljósi, og við gætum stýrt hreyfingum hjólformanna og um leið hreyfingum fólksins í rýminu; þetta yrði alltumlykjandi upplifun af því hvernig það gæti verið að baða sig í ljósinu frá tunglunum eða plánetunum – verða hluti af brennifleti útgeimsins.

Við rannsökuðum þemað „YET“ með því að skoða það gegnum linsu ljóss, efnis og rýmis. Varðandi ljós: Efnislegt eðli ljóss er tvenns konar; það er efniseind EN ÞÓ bylgja (Einstein taldi að ljós væri eind (ljóseind) og að flæði ljóseinda myndaði bylgju). Við vildum að gestir okkar í sýningarrýminu fengju að upplifa þetta tvískipta eðli, ekki endilega með vitsmunalegum hætti heldur gegnum upplifunina sem slíka. Varðandi gler: Gler er efni sem bæði er hægt að spegla ljós í og láta ljós brotna í, það er ævafornt EN ÞÓ nútímalegt. Á þessari sýningu notum við nýja aðferð við að tjá eðli glers, með þrívíðri prentun. Varðandi rými: Þessi samtvinnun ljóss og efnis mun vonandi skapa tilfinningu fyrir því að vera á jörðinni EN ÞÓ í lausu lofti; við viljum að fólki líði eins og það hafi fótfestu EN ÞÓ fært um að ferðast hindrunarlaust gegnum ljósið. Þetta er brenniflatarupplifun sem færir mann út í geim.

Til að þú getir nýtt þér þjónustuna á vefsvæði Lexus sem allra best notum við, og valdir samstarfsaðilar okkar, kökur á vefsvæði okkar. Ef þú heldur áfram án þess að breyta stillingum göngum við út frá því að þú samþykkir að veita viðtöku kökum frá vefsvæði Lexus.

LESA MEIRA