1. Kynntu þér Lexus
  2. Tæknilausnir
  3. Hugarfar brautryðjandans
Lexus á Íslandi
 

HUGARFAR BRAUTRYÐJENDANS

Hljómur útgeimsins.

Hljóð, í öllum sínum margbreytileika og fegurð, er einn undirstöðuþáttanna í hversdagslífinu – og þeir sem hafa næmt eyra fyrir vel hönnuðum hljóðviðburðum vita fátt meira spennandi en virkilega vandaðan hljóm. Hollenska tónskáldið og tæknisnillingurinn Paul Oomen er einn þeirra, en hann segir að hljóð hafi ævinlega verið hans „aðferð við að virkja hugmyndaflugið“.

Hann fór í fyrstu könnunarferðirnar um hljóðheima þegar hann var á barnsaldri og hófst með því ævilöng ástríða fyrir töfraveröld hljóðsins. Oomen hefur helgað sig því að rannsaka hin margbrotnu tengsl milli okkar mannanna og þess hljóðheims sem við upplifum.

„[ÞEGAR ÉG VAR STRÁKUR] VAR ÉG ALLTAF AÐ HUMMA LAGSTÚFA SEM MÉR DUTTU Í HUG OG SEM ÓLU AF SÉR HEILAN HEIM HLJÓÐA Í KOLLINUM Á MÉR, HEIM SEM VAR MIKLU STÆRRI EN LAGSTÚFARNIR,“ SEGIR HANN.

Paul Oomen, tónskáld og tæknisnillingur

„Ég hlusta eftir því sem gerist á milli hljóðanna og rýmisins, og á milli hljóðanna og líkama míns,“ segir hann. „Því betur sem við greinum milli endurkastsins og speglunarinnar sem hljóð framkalla í rými, þeim mun betur skiljum við að hljóðin sem við heyrum verða til í gegnum slíka gagnvirkni við allt umhverfi okkar.“

Oomen, sem býr og starfar í Búdapest, þar sem hann setti á fót Spatial Sound Institute árið 2015, lagði í fyrstu alla áherslu á að skapa hljóðmyndir og tónlist fyrir leikhús og óperusvið. Árið 2007 byrjaði hann að huga sérstaklega að rannsóknum á rými, hljóði og skynjun í fyrirtækinu 4DSOUND, sem hann stofnaði og þar sem hann hefur, ásamt starfsmönnum sínum, skapað nærri hundrað hljóðverk. Hann vill bæta og efla upplifun okkar af því að hlusta.

„Því fínstilltari sem hlustun okkar verður, þeim mun betur heyrum við rýmishljóðin,“ útskýrir hann. „Frábær hlustunarupplifun kallar á hljóðkerfi sem hreykir sér ekki hátt, heldur beinir athygli okkar að umhverfinu, þannig að við heyrum hljóð sem hluta af og á hreyfingu í umhverfinu. Hljóðkerfið er aðeins einn þáttanna í gangverkinu, því rýmishönnunin, frágangur í innanrými, félagslegir þættir og – síðast en ekki síst – innhald hljóðanna eru allt þættir sem þurfa að stemma saman til að upplifunin verði mögnuð í heild.“

Oomen lítur svo á að þessi upplifun sé byggð á virkri þátttöku hlustandans, engu síður en á gæðum tækjabúnaðarins.

„Núorðið höldum við athyglinni svo stutt í einu að það er mörgum mikil raun að finna nægilega hugarró til að geta einbeitt sér að einhverju sem krefst virkrar hlustunar,“ segir hann. „Ef við viljum upplifa nákvæmari og virkari hlustun þurfum við að byrja á að útiloka allan hávaðann í daglegu umhverfi okkar, annars hreinlega heyrum við ekkert.“

Hann hefur enn sem fyrr ástríðufullan áhuga á tónlist og hefur unnið við tónsmíðar frá æskuárunum, og hann er daglega umvafinn margþættum hljóðum, bæði í starfi og í einkalífi. Þrátt fyrir það hefur hann mest yndi af því að hlusta á þögn og kyrrð.

„Í daglega lífinu þrái ég ekkert heitar en að fá að hlusta á þögnina,“ játar hann. „Þögn er auðvitað afstætt hugtak, svo kannski ætti ég frekar að tala um „minni hávaða og meira rými“, þannig að skynfærin geti opnast og andað, og þá fer ég að heyra svo margt fleira.“

HLJÓMUR VELGENGNINNAR

Afburðahljóðupplifun getur breytt öllu. Allir þættir hljóðlausnanna í Lexus-bílunum, allt frá staðsetningu hátalaranna til gæða hljómsins, hafa verið þaulhannaðir í því skyni að tryggja fágaðra og meira lifandi hljóð í hvert sinn. Ný listgrein sköpuð á grundvelli ævafornra hefða.