1. Kynntu þér Lexus
  2. Afköst
  3. Hugarfar brautryðjandans
Lexus á Íslandi
 

HUGARFAR BRAUTRYÐJENDANS

Byltingarkenndar tæknilausnir beina okkur á rétta braut.

Til að fá magnaðar hugmyndir þarf stundum ekki bara að hugsa út fyrir rammana heldur hreinlega brjóta rammana og byrja upp á nýtt. Þannig var nálgun iðnhönnuðarins og tæknifrumkvöðulsins Laurence Kemball-Cook, sem einsetti sér að finna alveg nýja og skapandi lausn á þeim vaxandi vanda sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir vegna loftslagsbreytinga.

Hann var staðráðinn í að finna nýja lausn til að nota samhliða vind- og sólarorku og einn daginn, þegar hann var sem oftar á leið til Loughborough-háskólans þar sem hann var að ljúka námi í iðn- og tæknihönnun, fékk hann hugmynd.

„Á hverjum degi fór ég um Victoria-lestarstöðina, sem 75 milljónir manna ferðast um á ári hverju, og fór að íhuga alvarlega hvort ekki væri mögulegt að virkja eitthvað af allri hreyfiorkunni sem býr í fólkinu sem gengur þarna um,“ segir hann. „Ég leitaði fanga í mínum eigin rannsóknum á endurnýjanlegu efni og innviðum borga og datt þá í hug að virkja orkuna sem býr í íbúum borgarinnar, með því að nýta öll þessi skref.“

Kemball-Cook stofnaði eigið fyrirtæki, Pavegen, árið 2009 og hófst handa við að þróa nýtt og hugvitssamlegt gangstéttakerfi. Kerfið nýtir þyngd gangandi vegfarenda til að þrýsta á net rafsegulknúinna rafgeyma og skapar þannig hringrás sem býr til orku í litlu magni, sem má svo safna saman og geyma í rafhlöðum eða nota staðbundið, fyrir raftæki á borð við ljós, skynjara og gagnasenda.

Hann byrjaði þegar í stað að leita leiða til að koma þessari „snjallflatalausn“ á framfæri og þurfti í fyrstu að beita býsna óhefðbundnum aðferðum til að vekja áhuga viðskiptavinanna.

„Til að landa fyrsta samningnum settum við upp Pavegen-hellur á byggingarsvæði án þess að hafa neitt leyfi til þess og notuðum svo samfélagsmiðla til að sannfæra þróunaraðilann um að hann ætti að kaupa Pavegen-kerfið,“ viðurkennir hann. „Síðan þetta var höfum við byggt upp alþjóðlegan viðskiptavinahóp, kerfi samstarfsaðila um heim allan og teymi reynslumikilla starfsmanna.“

„TÆKNILAUSNIR OKKAR VÖKTU MIKLA ATHYGLI, ALVEG FRÁ FYRSTU FRUMGERÐINNI, BÆÐI HJÁ FYRIRTÆKJUM SEM VILDU EIGA SAMSTARF VIÐ OKKUR OG HJÁ FJÖLBREYTTUM HÓPI FJÁRFESTA, OG AUÐVITAÐ HJÁ FÓLKINU SEM NOTAR PAVEGEN,“ SEGIR HANN.

Laurence Kemball-Cook, iðnhönnuður og tæknifrumkvöðull

Það leið ekki á löngu þar til Pavegen-kerfið fór að spyrjast út og fram til þessa hafa Kemball-Cook og hans fólk annast uppsetningu yfir 200 varanlegra kerfa og tilraunaverkefna í 30 löndum um allan heim, þar á meðal á Dupont Circle í Washington og á ýmsum stöðum í miðborg Lundúna.

Nú hafa fjöldi borga og ýmis stórfyrirtæki, svo sem Google og Nike, sýnt áhuga á samstarfi við Pavegen og framtíð sjálfbærrar nýtingar á hreyfiorku virðist sannarlega björt.

 

Kemball-Cook telur að kerfið bjóði upp á einstaka möguleika á samþættingu við aðrar orkuuppsprettur og að það megi nota á margs konar stöðum, allt frá samgöngumiðstöðvum til skóla og verslana, til að skapa hugvitssamlegra og skilvirkara borgarumhverfi sem tekst með virkum hætti á við vandamál vegna loftslagsbreytinga.

„Ef okkur tekst að leysa orkuvandann höfum við sigrast á einni stærstu áskoruninni sem borgir samtímans standa frammi fyrir og getum þannig veitt auknum sköpunarkrafti og orku til annarra vandamála, svo sem fæðuöryggis og hnignunar líffræðilegrar fjölbreytni,“ segir hann. „Við eigum bara þessa einu jörð og það er því grundvallaratriði að vernda náttúruauðlindirnar sem við reiðum okkur öll á.“

FYRSTU SKREFIN INN Í FRAMTÍÐINA

Kjarninn í nálgun Lexus er nýsköpun og frumleiki. Með því að vinna ævinlega með nýjustu tæknilausnir á hverjum tíma, eiga samstarf við færustu vísindamenn og tæknimenn á hverju sviði og sýna í bæði orði og verki þrotlausan metnað til að leita byltingarkenndra lausna tekur Lexus ótvírætt forystusæti meðal keppinauta sinna.