Til að fá magnaðar hugmyndir þarf stundum ekki bara að hugsa út fyrir rammana heldur hreinlega brjóta rammana og byrja upp á nýtt. Þannig var nálgun iðnhönnuðarins og tæknifrumkvöðulsins Laurence Kemball-Cook, sem einsetti sér að finna alveg nýja og skapandi lausn á þeim vaxandi vanda sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir vegna loftslagsbreytinga.
Hann var staðráðinn í að finna nýja lausn til að nota samhliða vind- og sólarorku og einn daginn, þegar hann var sem oftar á leið til Loughborough-háskólans þar sem hann var að ljúka námi í iðn- og tæknihönnun, fékk hann hugmynd.
„Á hverjum degi fór ég um Victoria-lestarstöðina, sem 75 milljónir manna ferðast um á ári hverju, og fór að íhuga alvarlega hvort ekki væri mögulegt að virkja eitthvað af allri hreyfiorkunni sem býr í fólkinu sem gengur þarna um,“ segir hann. „Ég leitaði fanga í mínum eigin rannsóknum á endurnýjanlegu efni og innviðum borga og datt þá í hug að virkja orkuna sem býr í íbúum borgarinnar, með því að nýta öll þessi skref.“