LC Convertible Best Luxury Car Award Hero Image

LEXUS-FRÉTTIR

LEXUS LC-BLÆJUBÍLLINN VAR NEFNDUR BESTI LÚXUSBÍLL ÁRSINS 2021 Á VERÐLAUNAHÁTÍÐINNI WOMEN‘S WORLD CAR OF THE YEAR

 • Lexus LC 500 blæjubíllinn var nefndur besti lúxusbíll ársins 2021 á verðlaunahátíðinni Women‘s World Car of the Year (WWCOTY). Fyrsti Lexus-bíllinn með mjúkan topp er meðal sigurvegara í níu flokkum sem fengu viðurkenningu fyrir yfirburði sína í viðkomandi flokki sambærilegra bíla, þegar tekið var tillit til eiginleika á borð við öryggi, þægindi og tækni.
  Eftir að hafa sigrað í sínum flokki á bíllinn nú möguleika á að hreppa titilinn Besti bíll ársins, en WWCOTY kynnir næsta handhafa þess titils á alþjóðardegi kvenna, 8. mars.
  Þetta er 11. árið sem WWCOTY-verðlaunin eru afhent. Dómnefndina skipa 50 bílablaðamenn frá 38 löndum í fimm heimsálfum. Þetta er eina dómnefndin í bílgreinaheiminum sem er eingöngu skipuð konum.
  Ein dómaranna, Marta Garcia (Spáni), sem er forstjóri WWCOTY, sagði: „Lexus LC 500 blæjubíllinn er dásamleg draumsýn, bíll sem allir ættu að hafa á óskalistanum. Bíllinn býr yfir ástríðu sígilds sportbíls, bíls sem ekki þarf nein trikk og ekkert túrbó til að heilla mann upp úr skónum“.
  Anat Daniel (Ísrael) ræddi um það hvernig samþætting lúxuss við „japanskt íþróttaútlit“ og „stórbrotna“ vél gerir þennan bíl „einstakan og ógleymanlegan“, en Charleen Clarke (Suður-Afríku) fullyrti að það væri „geggjað að keyra hann“.
  LC-blæjubíllinn – rétt eins og systurgerð hans, tveggja dyra sportbíllinn – fangar allt sem einkennir þróun Lexus sem lífsstílsmerki fyrir lúxus. Hér fá kröfuharðir kaupendur akstursánægju, einstaka hönnun og afburða handverk.
  Við fengum nasasjón af töfrum LC-blæjubílsins þegar frumgerð hans var afhjúpuð á bílasýningunni í Detroit árið 2019. Þar mátti sjá hvernig yfirhönnuðurinn Tadao Mori og hans fólk hafði tekist að þróa margverðlaunaða tveggja dyra sportbílinn í engu síður glæsilegan og eftirsóknarverðan blæjubíl, með hugmyndina um „hreina fegurð“ að leiðarljósi. Það voru aðeins gerðar smávægilegar breytingar þegar framleiðslan hófst, en bíllinn kom á heimsmarkað árið 2020 og tók þegar sinn verðskuldaða sess sem verðandi skrautfjöður Lexus-línunnar.
  Hönnunarteymið lagði áherslu á að þróa bíl sem er jafnglæsilegur hvort sem þakið er á eða ekki og beinir rómaðri nostursemi Lexus við smáatriði að þáttum eins og niðurfellingarbúnaði blæjunnar, í því skyni að laða fram fullkomnar línur, án þess að fórna þægindum í farþega- eða farangursrými. LC-blæjubíllinn svíkur heldur engan um „hrífandi afköst“ Lexus, enda með 5,0 lítra V8-vél og 10 gíra sjálfskiptingu með sportgírkassa, sem tryggir blæjubílnum okkar 270 km/klst. hámarkshraða (tölvustýrð takmörkun). Hægt er að ná hröðun úr 0 í 100 km/klst. á aðeins fimm sekúndum og hárnákvæm straumlínulögun ytra byrðis kemur í veg fyrir óþægindi vegna vindgnauðs þegar gefið er vel í. Farþegarýmið er sérlega fallegt, allur frágangur er unninn úr hágæða efni og hönnun, þægindi og skynrænt yfirbragð bílsins endurspeglar hugmyndafræði Lexus um að hafa fólk í fyrirrúmi.
  Fyrir 2021 tók WWCOTY upp nýja aðferð við atkvæðagreiðslu og valdi fyrst þrjár bestu gerðirnar í hverjum flokki, en því næst endanlega sigurvegara. Bílarnir sem kepptu um titlana komu á markaðinn frá janúar til desember 2020. Eins og fyrri ár var óháði eftirlitsmaðurinn Grant Thornton frá Nýja-Sjálandi sem vottaði greidd atkvæði.
  Nánari upplýsingar um WWCOTY er að finna á https://www.womensworldcoty.com/.