Þetta er sérlega flókið vinnuferli sem krefst gífurlegrar færni og reynslu og þess vegna hafa vinsældir þessarar einstöku listgreinar dalað svolítið á nýliðinni öld.
Þó er einn maður staðráðinn í að ekki einasta halda áfram að iðka hina fornu Yosegi-list, heldur færa henni einnig samtímalegri svip og kynna fegurð hennar fyrir heiminum öllum.
Ken Ota er víðfrægur sem einn helsti meistari okkar tíma á sviði Yosegi-trélistar. Hann er einnig óþreytandi talsmaður listarinnar og er jafn metnaðarfullur gagnvart viðhaldi hefðbundinnar tækni og hefða og hann er við að þróa nýjar aðferðir og hugmyndir innan sinnar listgreinar.
„Ég vil halda hefðinni við og vernda hana,“ segir Ota, sem vinnur í stúdíói í Hakone í Japan, en þar er einmitt vagga Yosegi-listarinnar. „Það verður best gert með þróun og nýsköpun. Þetta er ekki bara spurning um „að herma eða herma ekki eftir“ heldur að leggja rækt við eigin frumleika og hugmyndir.“