1. Kynntu þér Lexus
  2. Hugarfar brautryðjandans
Lexus á Íslandi
 

HUGARFAR BRAUTRYÐJENDANNS

Listin að varðveita dýrmætar hefðir frá kynslóð til kynslóðar.

Sum listform eru svo einstök og fegurð þeirra svo djúpstæð að þau lifa ekki aðeins af í aldanna rás, heldur blómstra og dafna.

Edo Kiriko-glerskurðarlist er frábært dæmi um þetta, en sú listgrein krefst ótrúlegrar færni, þjálfunar og listfengis og handverksfólkið sem enn stundar þessa 200 ára listiðn er afar stolt af að halda svo gjöfulli og dýrmætri hefð við. Listafólkið er þó einnig nútímafólk og vill ekki takmarka listgrein sína með því að skilgreina hana fyrst og fremst sem gamla hefð.

„Hefð er stórt og þungt orð, hlaðið margs konar merkingu,“ segir Yoshiro Kobayashi, sem er af þriðju kynslóð Edo Kiriko-listamanna. „Hefð verður ekki þvingað upp á neinn, né heldur er hún byrði sem við eigum að rogast um með, heldur nokkuð sem ég held að verði til í daglegum störfum, sem vex með lífrænum hætti þegar við endurtökum siði og venjur fyrri tíma ... eitthvað sem tengir alla og allt saman.“

Eitt af veigamestu atriðunum í Edo Kiriko eru endurtekningar, með ýtrustu nákvæmni, og þau sem vilja ná færni í listinni þurfa að gangast undir áralanga þjálfun. Líkt og margir slíkir listamenn byrjaði Kobayashi ungur þjálfun sína, en hann var aðeins 13 ára þegar hann byrjaði að vinna á verkstæði föður síns.

„[Í þá daga] lærði maður af því að fylgjast með eldri handverksmönnum … stundum æfði ég mig í 10 klukkustundir á dag,“ segir hann. „Þetta var virkilega erfið vinna.“

Hann lagði hart að sér til að fullkomna færni sína og játar að honum hafi í raun ekki fundist eins og hann væri orðinn fullgildur í faginu fyrr en hann hlaut sérstök verðlaun frá öðrum úr listgreininni, en þá var hann orðinn 33 ára. Þetta er því sannarlega langt og krefjandi ferli, en þessi langa þjálfun er í raun hornsteinninn að þessari glerlistgrein, sem er upprunnin á Tókýósvæðinu, við lok Edo-tímabilsins. Listin er einstaklega nákvæm og krefst fullkomnunar og vandvirkni sem endurspeglar svo sannarlega ýmsa þætti í japanskri menningu.

Hugarfar brautryðjandans í handverki | Lexus í Evrópu

„JAPANIR HUGA ÆVINLEGA AÐ SMÁATRIÐUNUM,“ SEGIR KOBAYASHI. „ÞAÐ ERU LITLU HLUTIRNIR SEM SKIPTA MESTU MÁLI … ÞETTA ER HLUTI AF UNDIRMEÐVITUND OKKAR. EITTHVAÐ SEM VERÐUR OKKUR EÐLISLÆGT, NÁNAST ÁN ÞESS AÐ VIÐ TÖKUM EFTIR ÞVÍ.“

Yoshiro Kobayashi, Edo Kiriko-glerlistamaður

Kobayashi lítur svo á að listsköpun sín þurfi að vera bæði margbrotin og vandasöm, því þannig verði til afurðir í hæsta gæðaflokki. Það er auk þess einmitt þetta sem færir honum einlægustu ánægjuna af listsköpuninni.

„Ég er sannfærður um að þessi hugmyndafræði hefur mikil áhrif á allt handverk,“ segir hann. „Það er lögð rík áhersla á að fullkomna jafnvel smæstu atriði. Þess vegna sýna handverksmennirnir alltaf mjög mikla vandvirkni, sama hvað verið er að smíða. Það er þannig sem listamaðurinn upplifir mesta gleði og fullnægju við sína vinnu.“

Kobayashi leggur gífurlegan metnað í listsköpun sína og hefur fundið gífurlega persónulega fullnægju í starfi, en þrátt fyrir það þrýsti hann aldrei á sinn eigin son að fara sömu leið, heldur hvatti hann til að kynna sér aðra starfsmöguleika.

 

Það sýndi sig þó að fjölskylduhefðirnar og sagan heilluðu Yohei, son hans, og nú starfar hann í fjölskyldufyrirtækinu og setur sinn eigin, nútímalega svip á verkin, þótt verk hans einkennist líka af handverkinu sem fyrirrennarar hans hafa fullkomnað og þróað um kynslóðir.

„Að fá að gera það sem maður hefur ánægju af, og lifa af því um leið, er frábært,“ segir Kobayashi. „Ég er virkilega ánægður með að hafa valið þetta starf.“

KYNSLÓÐIR HANDVERKSMANNA

Það var Edo Kiriko-glerlistafólkið sem skapaði gullfallega klæðninguna í innanrými LEXUS LS, sem gerir umhverfið inni í bílnum fíngert og virðulegt en um leið sérlega glæsilegt.