Sum listform eru svo einstök og fegurð þeirra svo djúpstæð að þau lifa ekki aðeins af í aldanna rás, heldur blómstra og dafna.
Edo Kiriko-glerskurðarlist er frábært dæmi um þetta, en sú listgrein krefst ótrúlegrar færni, þjálfunar og listfengis og handverksfólkið sem enn stundar þessa 200 ára listiðn er afar stolt af að halda svo gjöfulli og dýrmætri hefð við. Listafólkið er þó einnig nútímafólk og vill ekki takmarka listgrein sína með því að skilgreina hana fyrst og fremst sem gamla hefð.
„Hefð er stórt og þungt orð, hlaðið margs konar merkingu,“ segir Yoshiro Kobayashi, sem er af þriðju kynslóð Edo Kiriko-listamanna. „Hefð verður ekki þvingað upp á neinn, né heldur er hún byrði sem við eigum að rogast um með, heldur nokkuð sem ég held að verði til í daglegum störfum, sem vex með lífrænum hætti þegar við endurtökum siði og venjur fyrri tíma ... eitthvað sem tengir alla og allt saman.“
Eitt af veigamestu atriðunum í Edo Kiriko eru endurtekningar, með ýtrustu nákvæmni, og þau sem vilja ná færni í listinni þurfa að gangast undir áralanga þjálfun. Líkt og margir slíkir listamenn byrjaði Kobayashi ungur þjálfun sína, en hann var aðeins 13 ára þegar hann byrjaði að vinna á verkstæði föður síns.